Um lesblindu á vinnustaðnum
Félagið vill þakka Minningarsjóði Ingibjargar R. Guðmundsdóttur fyrir styrki sem fengust til verkefnisins Lesblinda á vinnustaðnum.
Rannsóknir sýna að um 10–20% einstaklinga eiga í erfiðleikum með lestur og að mikill hluti þeirra er lesblindur. Lesblinda er þó enn verulega vangreind hjá einstaklingum og því hafa margir á vinnumarkaði ekki fengið rétta greiningu. Við vitum að það er þörf að vekja upp umræðu um lesblindu á vinnustaðnum þar sem lesblindir eru oft hræddir að koma fram og segja frá sinni skerðingu og upplifa oft fordóma og skilningsleysi sem eru afleiðing af þekkingarleysi. Lesblindir starfsmenn hafa verðmæta eiginleika og hæfni sem geta nýst betur ef skilningur og þekking er til staðar. Stjórnendur sem þekkja ekki einkenni lesblindu dæma lesblinda starfsmenn og frammistöðu þeirra stundum á röngum forsendum þegar skortur á skilningi og óhentugt vinnuumhverfi er oftar en ekki orsök vandans. Lesblindir starfsmenn hafa yfirleitt þróað með sér aðferðir til þess að takast á við lesblinduna og þeim tekst því yfirleitt að að sinna starfi sínu mjög vel.
Af þeim hindrunum sem lesblindir á vinnumarkaði glíma við eru eftirfarandi atriði oftast tilgreind:
- Hægur lestrarhraði og lesskilningi er stundum ábótavant.
- Erfiðleikar við að koma hugmyndum og tillögum frá sér, t.d. með því að skrifa skýrslur, minnisblöð eða tölvupósta.
- Stundum skortur á nákvæmni við meðferð og vinnslu talna.
- Hindranir við einbeitingu og truflast auðveldlega.
- Erfiðleikar við að muna símanúmer, skilaboð og fyrirmæli.
- Raða, leita að eða vinna með skjöl og pappíra í stafrófsröð.
- Vandamál við skipulagningu á vinnutíma, tímasetningar eða staðsetningar, t.d. funda og annarra viðburða.
Þessi vandamál skyggja oft á hæfileika lesblindra sem fá þá ekki að njóta sín. Oft geta smávægilegar breytingar gert það að verkum að lesblindir nái að nýta hæfileika sína, vinnustaðnum til góða. Hafa ber í huga að þær úrbætur nýtast ekki aðeins lesblindum því aðrir starfsmenn hagnast oft á þeim einnig.
Félagið gaf út bækling þar sem farið var yfir hvernig lesblinda hefur áhrif á vinnustaðnum. Í bæklingnum er m.a. farið yfir:
- Einkenni
- Styrkleika lesblindra
- Lesblindu í starfumhverfinu
- Ráð fyrir vinnuveitendur
- Ráð fyrir starsmanninn
Samhliða gerð bæklingsins voru gerð nokkru stutt kynningarmyndbönd um hvernig lesblinda hefur áhrif á einstaklinga og örmyndbönd um tækni sem nýtist lesblindum til að auðvelda lestur og skrift. Myndböndin eru aðgengileg hér á heimasíðu félagsins.
Ráðgjöf fyrir vinnuveitendur
Félag lesblindra býður vinnuveitendum upp á ráðgjöf varðandi aðlögunarmöguleika fyrir lesblinda ásamt fræðsluerindum um lesblindu á vinnustaðnum.
Það mikilvægasta sem vinnuveitandi getur gert fyrir lesblindan starfsmann er að sýna skilning. Lesblinda er ekki val heldur veruleiki sem þessir starfsmenn þurfa að takast á við. Margir lesblindir hafa staðið frammi fyrir mikilli neikvæðni í lífinu og þar af leiðandi getur skilningur og jákvæðni gefið lesblinda starfsmanninum aukið sjálfstraust sem gerir honum kleift að nýta styrkleika sína betur. Auk þess er mikilvægt að skilja að engir tveir lesblindir starfsmenn hafa nákvæmlega sömu einkennin eða þurfa sömu aðlögun. Það sem virkar fyrir einn mun kannski ekki virka fyrir einhvern annan.
Fyrir starfsmanninn
Mundu að langflestum vinnuveitendum stendur á sama um hvort þú ert lesblindur eða ekki svo lengi sem þú sinnir starfi þínu vel. Það getur verið mjög gott að setjast niður með yfirmanni og ígrunda hvaða áhrif lesblindan hefur og hvað sé hægt að bæta í vinnuumhverfinu svo þú getir nýtt alla þína hæfileika. Það er alltaf hægt að leita ráða hjá félaginu varðandi hvaða úrræði eru í boði.