Raddstýrður gervigreindarkennari
Félag lesblindra á Íslandi hefur gengið til samstarfs við upplýsingafyrirtækið Atlas Primer um að þróun raddstýrðs gervigreindarkennara fyrir íslenskt námsefni. Með þessu samstarfi er stigið mikilvægt skref í að auka aðgengi lesblindra að námsefni og að færa menntakerfið inn í framtíðina.
Atlas Primer er íslenskt sprotafyrirtæki í menntatækni sem hefur einsett sér að auka aðgengi námsefnis fyrir nemendur með notkun talþjóna og snjalltækni. Með lausn fyrirtækisins er hægt að nýta talþjón fyrir hvaða námsefni sem er og geta nemendur því nálgast fyrirlestra, verkefnalýsingar, prófspurningar, svör og skilgreiningar, með raddskipunum einum saman. Talþjónn mun þá spila efnið, lesa það upp eða svara í töluðu máli.
Núverandi menntakerfi byggir að miklu á lesnum texta og kyrrsetu við skjái. Slíkar aðstæður kalla á sérstök úrræði fyrir lesblinda og aðra sem eiga reynist örðugt að sækja upplýsingar með hefðbundnum boðleiðum.
Hinrik Jósafat Atlason, stofnandi Atlas Primer, segir að þeirra markmið sé að skapa námsumhverfi sem sé einstaklingsmiðaðra og mæti fjölbreytni nemenda betur, lesblindum eður ei, og auka aðgengi að námsefni, án sérkennslu og sérúrræða.
Tækni Atlas Primer er nú þegar nýtt við kennslu í Háskólanum í Reykjavík og er til reynslu víðar. Reynsla af þessari tækni hefur verið góð og ljóst er að raddstýringin sé mikill þægindaauki fyrir nemendur, þó ávinningur sé vafalaust meiri fyrir lesblinda.
Samstarf Félags lesblindra á Íslandi og Atlas Primer miðar að því að gera talþjóninn aðgengilegan á íslensku en hann er í dag einungis fáanlegur á ensku. Vonast er til að vel gangi að tryggja fjármagn til að standa undir nauðsynlegum þróunarkostnaði og að verkefnið vinnist eins hratt og mögulegt sé. Rétt er að taka fram að kennarar og leiðbeinendur námskeiða á ensku, geta strax í dag byrjað að nýta sér raddstýrða gervigreindarkennarann.
Áhugasömum aðilum er bent á að hafa samband við Snævar Ívarsson framkvæmdastjóra Félags lesblindra (snaevar@fli.is) sem veitir nánari upplýsingar. Einnig má fræðast um Atlas Primer á vefsíðu fyrirtækisins https://www.atlasprimer.com