Félag lesblindra á Íslandi
Félag lesblindra á Íslandi (FLÍ) er félag sem mun vinna markvisst að því að auka vitund og þekkingu á lesblindu á Íslandi.
Tilgangur FLÍ er að vinna að hverskonar hagsmunamálum lesblindra með það að markmiði að jafna stöðu þeirra, í leik, starfi og menntun á við aðra í samfélaginu.
FLÍ var stofnað 2003 og hefur félagið frá þeim tíma unnið ötullega að hagsmunamálum til að mynda gefið út kennslu- og fræðslubækur um lesblindu, svo og hljóðbók, gert heimildarmynd um lesblindu, gefið út bækling um lesblindu á vinnustaðnum, sinnt öflugu kynningarstarfi innan skóla og á vinnustöðum, gert heimasíðu og haldið ráðstefnur og fræðslufundi.
FLÍ hefur einnig látið gera könnun á vegum Capacent- Gallup um lesblindu á Íslandi. Þar kemur fram að 18% Íslendinga er með lestrarörðugleika. FLÍ er eitt af stærri aðildarfélögum Öryrkjabandalags Íslands með um 1680 félagsmenn og tekur þátt í samstarfi lesblindusamtaka í nágrannalöndum.
Félagið hefur haldið úti rekstri skrifstofu frá árinu 2008 þegar ráðinn var starfsmaður til félagsins til þess að mæta þeirri þörf að lesblindir og aðstandendur þeirra hefðu aðila til að leita til varðandi aðstoð, hagsmunagæslu, kennslu o.fl.
Starfsmaður félagsins sinnir jafnframt þessum verkefnum, umsjón með heimasíðu, fréttabréfi, situr í nefndum og ráðum Öryrkjabandalags Íslands til að mynda í samráðshóp á vegum ráðaneytisins um Hljóðbókasafn Íslands. Starfsmaðurinn sér um kennslu fyrir fullorðna í samstarfi við símenntunarstöðvar sem og ýmsu öðru kynningar og fræðslustarfi á vegum félagsins s.s. eins og kynningum á lesblindu víðsvegar um landið, í skólum og vinnustöðum.
Til félagsins leita margir lesblindir og aðstandendur þeirra eftir stuðningi og fræðslu og leggur félagið áherslu á að þjónusta einstaklinga endurgjaldslaust þar sem félagslegar aðstæður lesblindra eru oft ekki góðar. Félagið leiðbeinir um rétt þeirra til þjónustu og aðstoðar þá hvar þeir geti nálgast slíka þjónustu þar sem oft er erfitt að fá upplýsingar um slíkt í opinbera kerfinu. Einnig er félagið að sinna hagsmunagæslu með aðilum sem leita til þess sérstaklega í tengslum við skólastarf.
Félagið býður upp á einstaklingsráðgjöf varðandi hjálpartæki. Félagsmönnum býðst að panta tíma þar sem starfsmaður fer yfir hvaða hjálpartæki gætu nýst og aðstoðar við að nálgast þau og setja upp á símum, spjaldtölvum og tölvum.
Félagið hefur undanfarin ár staðið að námskeiðum fyrir fullorðna í samstarfi við símenntunarstöðvar á landinu stundum með sérnámskeiðum og stundum með því að taka þátt í kennslu á lengri námskeiðum eins og t.d. Aftur í nám . Á Námskeiðunum er farið yfir hvernig megi nýta tölvur og tækni við lestur og skrift.
Árið 2015 gaf félagið út veglegan bækling um lesblindu á vinnustaðnum sem miðar að því að gefa góð ráð og auka skilning á hvernig lesblindan birtist á vinnustaðnum bæði fyrir starfsmanninn og vinnuveitandann. Þá stendur vinnustöðum til boða ráðgjöf varðandi aðlögun fyrir lesblinda