Góð ráð fyrir lesblinda starfsmenn

Endilega deildu okkur

Afar gott getur verið að setjast niður með yfirmanni og greina áhrif lesblindunnar og hvað sé hægt að bæta í vinnuumhverfinu svo þínir hæfileikar nýtist. Í því samhengi er gott að byrja á því að skoða eigin styrkleika og veikleika.

Þú getur t.d. spurt þig eftirfarandi:

  • Hvaða áhrif hefur lesblindan á mig í vinnunni?
  • Hvaða verkefni eru það sem lesblindan hefur mest áhrif á?
  • Er það að skrifa tölvupóst?
  • Taka niður skilaboð í símtali?
  • Lesa leiðbeiningar?
  • Skipuleggja daginn?

Lestur og skrif

Hægt er að auka vinnugetu með texta með því að tileinka sér nokkur grunnatriði. Yfir nokkur þeirra er farið hér að neðan.

  • Þurfir þú að skrifa langan texta, skiptu þá efninu í hluta því þannig vinnst verkið betur.
  • Veldu tíma þegar þú veist að þú verður fyrir minnstu áreiti.
  • Skráðu niður orð sem þú veist að þú átt erfitt með að stafsetja þannig að þú getir flett þeim upp síðar.
  • Notaðu stuttar setningar, einbeittu þér að aðalatriðum.
  • Lestu textann og greindu aðalatriðin.
  • Hafðu ekki áhyggjur af stafsetningu fyrr en þú hefur lokið við að skrifa.
  • Breyttu leturgerð, stærð eða bakgrunnslit.
  • Renndu yfir textann og skoðaðu myndir og töflur vel.
  • Prentaðu á litaðan pappír eða litaðar glærur.
  • Nýttu þér leiðréttingahugbúnað.
  • Nýttu vafra sem lesa yfir á íslensku.
  • Búðu til sniðmát fyrir tölvupósta, reikninga, fundarbókanir, pantanir o.fl.
  • Láttu talgervil alltaf lesa textann jafnóðum sem og í lokin svo þú heyrir hvernig hann hljómar.

Minni

Minnisörðugleikar eru vandamál sem sumir lesblindir þekkja vel og geta tengst oft nöfnum, dagsetningum og staðreyndum. Kvíði og streita geta aukið á vandann. Margir lesblindir hafa gott sjónminni og muna því betur ef upplýsingar eru myndrænar á meðan aðrir muna betur það sem er sagt er. Því er mikilvægt að þú áttir þig á hvort þér henti betur að sjá eða hlusta.

Hafðu eftirfarandi í huga þegar kemur að skráningu upplýsinga.

  • Afar gott er að nýta tengiliði og dagbækur í tölvu eða farsíma til að muna nöfn, tímasetningar og fleira.
  • Notaðu upptökutæki eða síma til að taka upp námskeið eða mikilvæga fundi.
  • Nýttu myndavélina þína til þess að taka myndir af mikilvægu efni á fundatöflunni.

Skipulagning og tímastjórnun

Að skipuleggja daginn sparar þér tíma. Að takast á við lesblindu á vinnustað hefur oft í för með sér að þú þarft að eyða meiri tíma í suma hluti en aðrir. Því er mikilvægt að verða leikinn í að forgangsraða verkefnum.

  • Búðu til lista. Skrifaðu niður það sem þarf að gerast í dag. Farðu yfir það mikilvægasta og merktu það sérstaklega.
  • Farðu yfir listann tvisvar á dag. Lítir þú ekki á listann reglulega kemur hann að engu gagni.
  • Endaðu daginn á að færa það sem ekki kláraðist á lista morgundagsins.
  • Notaðu dagbók fyrir alla fundi, nýttu hana líka til að setja inn skilafresti verkefna.
  • Nýttu dagbókina fyrir alla mikilvæga atburði í lífi þínu eins og afmælisdaga
  • Sumum finnst gott að nota minnismiða sem hengja má framan á tölvuna eða á vegg við hlið hennar með atriðum sem muna þarf.
  • Reyndu að raða skjölunum þínum þannig að þú eigir auðvelt með að finna þau. Hægt er flokka gögn í nokkra bakka: það sem á að gerast í dag, þarf að gerast bráðum eða geyma.

Endilega hafðu samband við okkur hjá félaginu hafir þú spurningar eða viljir leita ráða.